Hláturgas

0 comments

Úff, hvílíkur dagur.

Ég er búin að hlæja svo mikið að mig verkjar á ótrúlegustu staði. Ég held í alvöru að það sé mér barasta líkamlega ómögulegt að hlæja meira.

Þegar maður er búinn að hlæja svo mikið að maður hugsar með sér; "ó nei... mig langar ekki undir neinum kringumstæðum að hlæja meira, ellegar dey ég"! ... ja, þá er maður búinn að hlæja nóg í bili.

|

Trúbawhatnow?

0 comments

Sælinú.

Ég fór á kaffihús í gærkvöld til þess eins að hlusta á trúbador sem ég var viss um að yrði hræðilegur. Skrítið, no?

Manngreyið var svo miklu meira en hræðilegur! Hann var svo fruntalega hrikalegur að það varð dásemd ein! Ég hef ekki hlegið svona mikið í laaangan tíma og það verður nú ekki sagt um mig að ég sé ekki hláturmild svona venjulega (þrátt fyrir þunglyndisleg skrif þá er ég voðalegur sprelligosi dags daglega).

Ég veit að það á ekki að gera grín að svona fólki, fólki sem er kannski nokkrum samlokum frá því að vera heil lautarferð, en það eru takmörk fyrir því hvað maður getur setið lengi undir svona hryllingi án þess að missa sig. Maðurinn söng lag eftir lag eftir lag án þess að kunna textann eða kunna að skipta milli gítargripa svo vel væri. Textaþvælan ásamt óvenju mjóróma röddinni gerði þó útslagið. Ég skal skrifa inn nokkur gullkorn;

"Kallinn er með koffortið á bakinu."

"Því Lóa þarf að fara í fötin sín."

"Almost heaven, westnrinja..." og svo aðeins síðar í laginu "hmmbmm hehmmm older than a tee."

"Imagine theres no heaven, its icy if you try."

Nokkrar gloríurnar sem maðurinn gerði voru svo stórkostlegar að ég get ómögulega komið þeim í orð. Svona lagað ætti að vera til skemmtunar á geðdeildum landsins!

Ég passaði mig nú að láta manngreyið ekki sjá mig hlæja og það voru aðrir á staðnum sem kvöldust eins og ég. Það var þó afskaplega spaugilegt að sjá fólk koma inn af götunni, reka upp stór augu og horfa í kringum sig spyrjandi, greinilega að hugsa "bíddu... ha?" Einn spurði hvort þetta væri ekki örugglega falin myndavél eða eitthvað.

Ég er ógeðsleg og full mannvonsku, ég veit. En kommon... sumt er bara einfaldlega fyndið!

|

Asnalegt

0 comments

Afhverju þurfa allir að vera eins? Það er alveg merkilegt hvað fólk hefur mikla þörf fyrir að klæða sig eins og náunginn. Ég er kannski alveg hryllilega undarleg, en þegar ég sé konur í eins buxum á hverju götuhorni, þá bara langar mig ekkert í svoleiðis. Dö...

Ég keyrði á móti einstefnu í morgun. Það var eiginlega ófyrirgefanlegt því ég bjó við þessa götu og vissi alveg nákvæmlega að þarna var einstefna. Ég fékk þó allaveg alveg ofsalega sætt bros frá gömlum manni sem ég mætti.

Þetta er asnaleg færsla.

|

The End

0 comments

Ég sit ein, horfi á síðasta kertið brenna út og velti fyrir mér; eru þetta endalokin?

|

Te.

0 comments

Þegar ég húkti við eldhúsborðið í hádeginu, ein í öskrandi þögn þynnkunnar og var að reyna að næra mig eitthvað, þá rak ég augun í kassa af Melrose's tei. Af einskærum leiðindum og ömurlegheitum fór ég að lesa á kassann.

Directions: Place a Melrose's tea bag in a warmed teapot. Pour in boiling water. Infuse for 3-5 minutes. One Melrose's tea bag is sufficient for 2 cups of delicious tea.

Sjáum nú fyrir okkur manneskju eða aðra nokkuð vitiborna veru. Þessi vera sér tepoka og getur ekki ímyndað sér hvað á að gera við hann. Hvað gerir þessi vera? Jú, fyrir náð teframleiðandans getur þessi vera lesið sér til um það.

En bíðum nú við... hverjar eru fokkings líkurnar á því að sá sem ekki veit hvað á að gera við tepoka, kunni að lesa?!

|

Höfuð herðar eyru og nef, háls og nef.... nei bíddu...

0 comments

Ég var að koma frá HNE (háls- nef- og eyrnalækni). Djefulli gaman að byrja laugardaginn á því. Hann byrjaði á því að kíkja í eyru og eitthvað þvældist það fyrir honum hvað ég var járnuð (togaði bara í allt saman dóninn...) svo þegar hann er að fara að kíkja í kokið rekur hann augun í barmmerki sem ég er með á jakkanum mínum. Á því stendur "Pleasure or Pain".

Karlinn fer að flissa og spyr svo hvað þetta merki eigi að þýða. Ég tjái honum að það þýði sosem ekki mikið, vinkona mín hafi nælt þessu í mig og það bara dagað uppi (smá afsökun hmm...) og þá glottir hann meira og spyr hvort ég fíli BDSM.

HAHAHA! Fyrirgefðu sko! Djefulinn kemur honum það við?! Ég varð hálf-feimin (sem ég verð stundum svona í eigin persónu) og sagði voða skömmustulega neeiiiiiihhhh... Þá segir mannbjáninn;

"Já, já, það er sosem bara þitt val, getur ekkert gert að því hvað þú fílar" og glottir ægilega.

Annars kom það út úr skoðuninni að ég er með kvef í nefkoki (whut?), stækkun á kyrtlum við tunguna (whut?) snert af vélindabakflæði og skakkt miðnesi. Semsagt beisiklí í fokki. Einhverjar pillur fæ ég nú við þessu (tja ekki skakka miðnesinu samt) og þá á hljóðfærið að komast í toppstand. Hann sagði að ég þyrfti ekkert að hætta að drekka kaffi svo fremi sem ég væri ekki að borða mikil sætindi, sem ég geri ekki, svo ég fæ að halda yndislega kaffinu mínu!

Nú er deyfingin að fara úr og ég er öll aum í nebbanum.

Fyrir herlegheitin borgaði ég nærri því fimm þúsund krónur. Mér finnst að ég hefði átt að fá þetta frítt sökum þess að vera án efa áhugaverðasti sjúklingurinn hans í dag. Ekki nema hann spyrji allar konur hvort þær fíli BDSM.

|

Blarg

0 comments

Jæja nú er föstudagskvöld og ég komin í bómullarpilsið og ullarsokkana, svo nú skulum við pæla smá.

Fóbíur eru merkileg fyrirbæri. Held að mismunandi alvarlegar fóbíur og fælnir hrjái hvert einasta mannsbarn, hvort sem viðkomandi gerir sér grein fyrir því eður ei. Ég er svo mikið að reyna að vera í tengslum við sjálfa mig svo ég fór að hugsa út það sem ég hræðist og fælist. Mér datt strax tvennt í hug:

Naflar
Ég hata nafla og allt sem þeim við kemur. Ég vil ekki snerta annarra manna nafla og ég vil ekki að aðrir snerti minn. Ég get varla snert hann sjálf!
Ég held að þetta stafi af því að þegar ég var barn var ég með exem sem olli því að ég fékk sár í naflann og undir eyrnasneplana.

Hmm samt er ég heljárnuð um eyrun og hef samtals látið gera 15 göt. Er ekki með svo mörg samt, það gréri fyrir og ég lét gera aftur.

Gólf/pöddur
Ég get ekki sett föt á gólfið ef ég hef í hyggju að fara í þau aftur. Oh það fór um mig hrollur við tilhugsunina.
Þetta held ég að stafi af því að ég bjó í húsi þar sem allt var morandi af silfurskottum sem földu sig undir því sem var á gólfinu og skutust svo undan þegar það var tekið upp. Fyrir nokkrum árum bjó ég svo í íbúð sem barnaspítalinn útvegaði mér (á Leifsgötu að mig minnir) þar sem alllllskonar ógeðsleg skriðkvikindi bjuggu, auk mín. Við þetta rifjuðust upp óskemmtilegar stundir með silfurskottunum í denn og varð til þess að styrkja enn þessa gólffælni mína. Ég gæti bókstaflega lamast þegar ég sé skorkvikindi, eða köngulær!

Jahá. Það er örugglega fleira sem ég hræðist. Verð að hugsa málið.

|

Sveiattann!

0 comments

Jæja, það var keyrt á djefuls drusluna í dag.

Það mætti halda að bíllinn minn væri ekki nógu áberandi, ellllld-rauður, fólk keyrir í sífellu á hann og yfirleitt þegar hann er kyrrstæður! Ég fékk hland fyrir hjartað þegar ég kom niður stigann í tónlistarskólanum og mætti þar lögreglumanni í fullum skrúða sem sagði alvarlegri röddu: "Ég var einmitt að leita að þér..." Eins og ég væri ekki nógu veik á sálinni eftir píanótímann (blargmschmargmblarg!!!!) og svo þetta í ofan á lag! Það er þá þriðja beyglan á afturhlutann á innan við 6 mánuðum. Ég er löngu hætt að geta læst skottinu og með þessu áframhaldi hætti ég að geta lokað því.

Já og svo til þess að auka geðvonsku mína er verið að gera upp baðherbergið hjá fólkinu á móti. Ég fer á mánudaginn og ríf kjaft. Nýtt bað og nýtt eldhús, ekkert minna. Ellegar borga ég lægri leigu en hitt fólkið sem er í fínum, parketlögðum íbúðum með myglusveppafrí baðherbergi og óúldin eldhús með vöskum og vatnslásum framleiddum eftir 1960!

ÞAÐ SNJÓAR INN UM BAÐGLUGGANN ÞÓ HANN SÉ FOKKINGS LOKAÐUR!

Níd æ sei mor? Æ þeink nott!

|

Maddý

0 comments

Í dag hefði stórasystir orðið fertug.

Í gærkvöld þegar ég var að reyna að sofna fór ég að hugsa um hana, hvernig hún væri í dag hefði hún lifað. Hún væri falleg manneskja og eflaust ástfangin og barnmörg. Hún væri góð móðir og stolt af börnunum sínum. Við værum góðar vinkonur.

Ég á margar góðar minningar um Maddý þó svo ég hafi bara verið lítill óviti þegar hún dó. Ég man þegar við bjuggum á Hringbrautinni, þá kenndi hún mér að skrifa nafnið mitt í grænan leir á stofuborðinu. Ég man að hún sat alltaf á sama stað við eldhúsborðið þegar hún kom heim af sjúkrahúsinu, hún hvíldi olnbogann uppi á eldhúsbekknum og ég var oft að skottast eitthvað í kringum hana. Hún var svo góð við mig, kallaði mig litluna sína og var alltaf að lykta af hárinu á mér.

Ég man hana líka mjög veika. Hún þurfti blóðskiljun reglulega og stundum þegar hún var heima fór að blæða úr slagæðinni á lærinu. Það var óhugnanleg sjón þegar mamma reyndi að stöðva blæðinguna, en ég man að Maddý var alltaf róleg. Strauk mér um vangann og sagði mér að fara að leika. Mamma sagði mér seinna að þegar hún var orðin svo veik að hún gat sig varla hrært, þá vildi hún samt alltaf knúsa mig og spurði um mig.

Væri hún lifandi í dag væri ég eflaust að hlakka til þess að kíkja í afmæliskaffi á fallega heimilið hennar þar sem hún væri umvafin fjölskyldu og vinum.

Margrét Helga.
Fædd 1. mars 1966, dáin 23. desember 1984.

Blessuð sé minning þín elsku systir.

|

Skrípið

  • Ég er blóðugt
  • Frá Ísafjörður, Iceland
  • Prófýlan

Nýleg blöður

Gömul blöður

Hlekkir


ATOM 0.3