Upprisan - tímabundin?

0 comments

Jæja, voðalega er ég löt við þetta, o sei sei.

Ekki mikið að frétta, þannig lagað. Ég fór reyndar á Selfoss á síðustu helgi með vinnufélögunum (dagvinnu-settinu) og var það var afskaplega skemmtilegt. Við kíktum nú aðeins í búðir áður en við fórum austur og það svona örlaði á því að fólk væri að versla. Höhömm... Ég keypti mér eitthvað af fötum, þar á meðal svartan kjól sem ég hafði séð í síðustu borgarferð. Mig langaði svakalega mikið í hann þá en þurfti að gera annað við peningana. Þegar ég svo sá að hann var ennþá til þá keypti ég hann án þess að hugsa mig tvisvar um.
Það var svo rennt á Selfoss á úttroðnum bíl (hann var troðinn fyrir, fjórar gellur í sama bíl, hugsið ykkur farangurinn) þar sem við gistum á Hótel Selfossi. Hótelið er svaka-flott og alveg til fyrirmyndar. Það var hugsað mjög vel um okkur alla helgina og maturinn var æði. Á heildina litið var helgin fullkomin. Nokkur atvik eru þó eftirminnilegri en önnur, t.d. þegar við stóðum fjórar í hring uppi á herbergi, blindfullar og sungum "Gleði, gleði, gleði..." og lásum svo upp úr nýja testamentinu (þ.e. guðlöstuðum...) á meðan ein sat á rúminu með leggina í kross og alveg að pissa á sig sökum hláturs. Já, svo dansaði ég líka berfætt heilt ball! Bara sparkaði af mér kúrekastígvélunum og sokkunum!

Góðar stundir með góðu fólki.

Já, og viljið þið trúa því að ég sá bara ALEINN hnakka á meðan ég var þarna!

|

Urg

0 comments

Það er hin mesta mæða að eiga ættingja. Sérstaklega þegar þeir eru eigingjarnir, frekir og þiggja, þiggja, þiggja án þess að gefa nokkuð til baka.

Ég er búin að reyna eftir mesta megni að halda friðinn, árum saman. Nú er svo komið að ég hreinlega get það ekki. Í stað þess að öskra, æpa og grenja hef ég ákveðið að láta mér nægja að væla svolítið og þegja.

Algjör þögn. Get ekki hitt hana, vil ekki sjá hana, vil ekki heyra það sem hún hefur að segja því ég veit að það verður bara sjálfhverft og ásakandi bull um að ég þurfi að þroskast, hún eigi ekki að þurfa að gera neitt fyrir mig og ég þurfi stundum að hugsa út í það að hún sé kannski upptekin og hvernig ég geti látið svona við hana þar sem við séum bara tvær.

Hún gleymir jafnóðum öllu sem ég geri fyrir hana og allt sem ég hef lagt á mig í gegnum tíðina til þess að gera henni lífið auðveldara virðist hafa gleymst líka. Það er líka gleymt og grafið allt tillitsleysið sem hún sýndi foreldrum sínum, já og mér.

Þegar mig vantar eitthvað er það heimtufrekja.

Djöfull þoli ég ekki að geta brynjað mig fyrir öllu og öllum nema henni. Eru það blóðböndin?

ÞÚ ELSKAR EKKI MEÐ PENINGUM!

|

Tapað/fundið

0 comments

Rauður vaxlitur hefur komist í réttar hendur.

|

0 comments

Lífsmark.

Púlsinn rétt rúmlega 25 slög á mínútu.

Ég tóri.

Ég er búin að hugsa um það af og til síðastliðna viku að ég ætti kannski að kveikja á maskínunni, þó ekki væri nema til að gá hvort hún væri í lagi. Það er skref í rétta (?) átt því það hefur ekki hvarflað að mér í allnokkrar vikur að snerta kvikindið.

Þetta mjakast.

Ég verð komin úr körinni von bráðar.

Ég er búin að vera að skrifa á pappír, eins og var gert í gamla daga, þið vitið... pappír, hann er búinn til úr trjám. Aumingjans, vesalings trjálíkin bera hugmyndir sem ég vil endilega koma saman svo úr verði eitthvað annað en útkrafsaðir miðar. Til þess þarf ég að geta setið við maskínuna drjúga stund.

Ég dett stundum niður í það að hugsa ekki, svo fer ég að hugsa; langt síðan ég hugsaði síðast.

Djöfull.

Það er svo margt...

|

I got dem uglies...

0 comments

Ég er með ljótuna í dag... but anyway...

Hrikalega er óþægilegt að vinna með tregu fólki. Ég meina ekki endilega að það sé heimskt... bara tregt. Fólk sem getur aldrei drullast til þess að gera það sem það á að gera, þrátt fyrir tiltal, og sýnir aldrei metnað með því að gera kannski örlítið aukalega.

Það er nú svo að ég vinn á stað sem selur veitingar og þjónustu. Oftar en ekki kem ég þar sem viðskiptavinur þegar ég er ekki að vinna og þá þykir mér ægilega slæmt að fá skæting og leiðinleg tilsvör þegar ég bendi á það sem betur mætti fara (eins og t.d. ef mig langar meira í kalt kók en heitt). Þá stundina er ég viðskiptavinur, ekki starfsmaður, og ætti að fá sömu meðferð og aðrir.

Sumir mættu barasta taka sig saman í rassgatinu og rífa sig upp á andlitinu... eða eitthvað.

|

Innri röddin

0 comments

Hún er búin að æpa á mig í þrjá daga og í þrjá daga hef ég ekki hlustað. Maður hlustar jú ekki á svona bull, ha? Hvurslags endemis rugl og vitleysa væri það nú? Ég geri bara skyldu mína og ekkert með það neitt! Ég hef gert þetta margsinnis áður og aldrei hvarflað að mér að hætta við.

Andskotinn hafi það... svo gargaði hún svo hátt að ég varð að hlusta. Hjartað fór að slá hraðar og hnén fóru að skjálfa. Skynsemin og skylduræknin köfnuðu í fáránlegum tilfinningum sem brutust út og heltóku allan líkamann. Ég gat ekki fengið það af mér að gera þetta. Með klukkutíma fyrirvara hætti ég við.

Hvað er að mér? Ég geri ekki svona! Ég hlusta ekki á svona vitleysu. Ég tek því sem að höndum ber og drullast til að gera það sem ég á að gera! Hvernig gat ég hætt við...?

Ég er bara fegin að ég fékk stuðning frá einu manneskjunni sem skipti mig máli í þessu öllu. Ég var þá ekki ein um að hugsa svona.

Hún hafði þá bara rétt fyrir sér, þessi fáránlega innri rödd sem ég hef sjaldan eða aldrei hlustað á.

Ég var ekki velkomin og þetta var fyrir neðan mína virðingu.

|

Fjarvera

0 comments

Hæhó.

Ég er enn á lífi, bara í einhverri tölvulægð. Ég nenni ekki að kveikja á maskínunni jafnvel þó mér gefist tími til þess. Nú eru páskarnir og ég er að drukkna í vinnu og reyni að troða smááá djammi inn á milli.

Sjá'st bara síðar!

|

Skrípið

  • Ég er blóðugt
  • Frá Ísafjörður, Iceland
  • Prófýlan

Nýleg blöður

Gömul blöður

Hlekkir


ATOM 0.3